vnvnvbnvn

Fagmenska - gæði - öryggi
Fréttir
Allar helstu fréttir handleiðslufélagsins

Fræðslufundur Handís
Nóvember fræðslufundur Handís var haldinn á handleiðsludaginn 21. nóvember. Fundurinn var vel sóttur og var mjög ánægjulegur. Piret Bristol frá Tallin tengiliður okkar við ANSE ávarpaði fundinn og sagði frá því helsta sem er á döfinni hjá ANSE evrópusamtökum handleiðara. Þá sögðu þær Elísabet Sigfúsdóttir , Nadía Borisdóttir og Sveindís Jóhannsdóttir á mjög áhugaverðan hátt frá veru sinni síðastliðið sumar í ANSE Summer University. Næsti sumarskóli verður sumarið 2025 í Munchen og við stefnum á að fara sem flest þangað.

Matslistinn ProQOL er kominn út á íslensku
Matslisti fyrir starfstengd lífsgæði fagfólks (e. Professional Quality Of Life Scale – ProQOL) er kominn út á íslensku. Félagsráðgjafarnir Sveindís Anna Jóhannsdóttir, Steinunn Hrafnsdóttir og Nadía Borisdóttir þýddu listann með leyfi frá samtökunum The Center for Victims of Torture (CVT). Sveindís og Nadía eru einnig menntaðir handleiðarar og sitja í stjórn Handleiðslufélags Íslands en Steinunn er prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Í þýðingarferlinu var matslistinn bakþýddur og forprófaður ásamt því að íslenskusérfræðingur las yfir og kom með ábendingar. Dr. Beth Hudnall Stamm á heiðurinn af þróun ProQOL listans og hefur lagt áherslu á að listinn sé ókeypis og aðgengilegur. Hægt er að nálgast matlistann á slóðinni www.proqol.org Þegar komið er inn á heimasíðuna þarf að velja flipann PROQOL, velja þar undir ProQOL Measure og fara niður síðuna þar til komið er að öðrum tungumálum en þau birtast í stafrófsröð. Samtökin CVT hafa umsjón með matslistanum og er allur réttur þeim áskilinn. Matslistinn ProQOL hefur verið notaður frá árinu 1995 til að mæla bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að vinna náið á faglegan hátt með öðru fólki en listinn mælir bæði samkenndarsátt (e. compassion satisfaction) og samkenndarþreytu (e. compasion fatigue). Samkenndarsátt er þegar fagfólki líður vel í starfi, upplifir öryggi, traust og stuðning í starfi þannig að jafnvægi er á milli þess sem starfsmaðurinn gefur af sér og þess sem hann fær til baka í gegnum sína vinnu. Samkenndarþreyta myndast þegar starfsmenn gefa meira af sér í starfi en þeir fá til baka. Samkenndarþreytu er skipt í tvo undirþætti, annars stigs áföll og kulnun. Starfsmenn í velferðarþjónustu verða oft vitni að alvarlegum atburðum, angist og sorg skjólstæðinga sinna og annars stigs áfall er þegar stakur atburður eða uppsöfnun margra atburða veldur einkennum sem eru sambærileg við áfallastreituröskun og starfsfólk óttast um öryggi sitt í vinnu og jafnvel utan hennar. Kulnun er hugtak sem nær yfir tilfinningalega örmögnun í kjölfar langvarnandi streitu í starfi og margir hafa talað um að hafa „tæmt sig alveg, þannig að það er ekkert eftir“ eða hafa „lent á vegg“ og hrunið andlega, líkamlega og félagslega í kjölfarið. Matslistann ProQOL er gott að nota í handleiðslu við grunnmat og endurmat eða árlegt stöðumat en listinn metur bæði samkenndarsátt og samkenndarþreytu. Niðurstöður matslistans geta verið gagnlegar við að móta áherslur í handleiðslunni og hversu oft er þörf á handleiðslu. Ef sem dæmi samkenndarsátt mælist mjög lág en samkenndarþreyta mjög há, þannig að um er að ræða annars stigs áföll og/eða kulnun, þá gæti verið mikilvægt að skipuleggja vikulega handleiðslu um tíma og þegar einkenni minnka og líðan batnar er hægt að hafa lengra á milli handleiðslutíma. Almennt er talið að gagnsemi handleiðslu minnki mjög sé handleiðsla sótt sjaldnar en á 4-6 vikna fresti. Sveindís Anna Jóhannsdóttir verður með námskeið í notkun ProQOL þriðjudaginn 31. október kl. 16:00 til 18:00 og hægt er að skrá þátttöku á netfangið sveindis@felagsradgjafinn.is Lokadagur skráningar er föstudagurinn 27. október. Námskeiðið fer fram að Selhellu 13, 221 Hafnarfirði. Námskeiðið kostar 8.000 kr. fyrir félagsfólk Handleiðslufélags Íslands en almennt verð er 15.000 kr.

Pistill úr Tímariti ANSE 2023-1
Sveindís Anna Jóhannsdóttir, varaformaður Handleiðlsufélags Íslands, var beðin um að taka að sér að vera fastur pistla höfundur í Tímariti ANSE sem gefur út tvö tölublöð árlega. Fyrsti pistilinn birtist nú í júní en þema tölublaðsins var “Failures, faults and fiascos”. Á hlekknum hér fyrir neðan má síðan nálgast tímaritið í heild sinni https://www.professioneelbegeleiden.nl/public/files/ANSE-2023-01-99.pdf
Einstakt tækifæri í Nóvember
Í ár ætlum við að halda vinnustofu með þeim Andrew Shaffer MCC og Jeanne - Elvire Adotevi, á netinu. Þetta er í fyrsta skipti sem við í Handís erum með vinnustofu með þessum hætti. Vinnustofan heitir Comfortable with Uncomfortable . Vinnustofan er haldin fyrir félaga í Handís og er kl. 08:00-10:00 að íslenskum tíma, 10. Nóvember næstkomandi. Þið sem viljið grípa þetta einstaka tækifæri sendið netpóst á handleidsla@gmail.com þar sem þið látið vita að þið hafið áhuga á að taka þátt. Sum vilja mögulega hittast og sitja saman þó vinnustofan sé á vefnum meðan það hentar öðrum frekar að vinna að heiman eða innan sinnar skrifstofu. Þau sem hafa áhuga á að sitja vinnustofuna með öðrum áhugasömum eru beðin um að taka það fram í netpóstinum. Vonandi sjáumst við sem flest.

Handleiðsla – sjálfsrækt og fagþroski gegn örmögnun í hjálparstarfi
Að hjálpa hjálpurunum Undanfarið hefur aukin athygli beinst að fagfólki í hjálparstörfum. Viðbótarálag hefur verið á starfsfólk í velferðarþjónustu allra síðustu misseri, m.a. tengt Covid-faraldrinum og því ofurálagi sem hann hefur valdið í heilbrigðisþjónustu og í raun allri velferðarþjónustu, þ.e. heilbrigðis-, félagsþjónustu, barnavernd og í skólum. Það hefur skerpt vitund og umræðu um nauðsyn þess að hlúa að þeim sem hjálpa öðrum. Þetta er tengt hugsuninni um það að setja þarf súrefnisgrímuna á sjálfan sig áður en viðkomandi er fær um að veita öðrum hjálp. Í þessu sambandi hefur „súrefnisskortinum“ verið líkt við samúðarþurrð eða samúðarþreytu (e.compassion fatigue). Margbreytileg hugtök hafa verið sett fram í því sambandi s.s. kulnun, örmögnun, fagþreyta, starfsþreyta, útbrennsla, samhygðarþrot og samkenndarþreyta. Þessi hugtök snúa öll að einkenninu sjálfu, þ.e. birtingarmyndinni á því „skorts“- eða kreppuástandi sem að baki liggur. Það er ákall á að þegar allt er komið í óefni sé þörf á bráðainngripi líkt og þegar slökkva þarf elda. Hugtakið handleiðsla sem hér verður nánar vikið að, er af öðrum toga. Það vísar til forvarna, styrkingar og þroska sem miða að faglegri og persónulegri velferð í starfi. Í því felst að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Eitt tilefni þessarar greinar er að fagna nýframkominni þingsályktunartillögu um greiningu á samúðarþreytu og tillögum að úrræðum (Þingskjal nr. 321/2021-2022). Við viljum nota það tækifæri til að reifa stöðu handleiðslumála á Íslandi og brýna stefnumótendur og stjórnendur á vettvangi til frekari aðgerða með því að veita þingsályktuninni brautargengi. Þannig verði gengið skrefinu lengra með áherslu á handleiðslukerfi sem forvörn en jafnframt með þróun úrræða þegar skaðinn er þegar skeður. Þróun handleiðslu, sérfræðiþekking og menntun handleiðara Heil fræðigrein hefur þróast með rannsóknum á gagnreyndri nytsemi handleiðslu, þróun vinnulíkana og aðferðanálgunar. Ein slík rannsókn sem nú er unnið að og nær til breiðs hóps fagfólks hér á landi, þar með talið samanburðarhóps, hefur hlotið styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til að afla þekkingar á gildi handleiðslu í faglegu starfi. Í ljósi aukinnar þekkingar hafa framsæknar stofnanir sem þjónusta almenning komið á skipulegu handleiðslukerfi og líta á það sem fastan lið í innviðum stofnunar að vinna að fagþróun, vernd og þroska hvers fagmanns. Til þess að sinna því verkefni hefur fagfólk sótt sér sérfræðiþekkingu og þjálfun sem handleiðarar. Hér á landi hafa nokkrir tugir handleiðara útskrifast með diplómanám í handleiðslufræðum, ýmist frá Háskóla Íslands, Endurmenntun HÍ eða í samstarfi við erlenda háskóla. Nú sækir 27 manna hópur fagfólks með breiða reynslu af vettvangi 3ja missera námslínu á meistarastigi við Félagsráðgjafadeild HÍ. Námið er þverfaglegt og spannar fræðilegan grunn handleiðslufræða, klínískan þjálfunarhluta og sjálfsvinnu. Fyrir liggur umtalsverð þekking á mikilvægi þess að þeir einir taki að sér handleiðslu fagfólks sem hafa hlotið til þess viðeigandi menntun. Skortur á fagmennsku í þeim efnum getur hæglega grafið undan trúverðugleika og gagnsemi handleiðslu og jafnvel leitt til skaða (Ellis o.fl., 2017). Mikilvægur liður í þjálfun handleiðara er sjálfsþekking og áhersla á ígrundun og gagnrýna hugsun (Johns, 2017). Með hvata handleiðslusamtalsins opnast leiðir þar sem speglun og endurgjöf efla sjálfsskilning og getu fagmanns til að öðlast innsæi í eigin fagmennsku, mörk sín, gildi og sýn á faglegt starf. Menntaður handleiðari stuðlar jafnframt að því að fagaðili njóti sín í átt að aukinni skilvirkni, öryggi og siðferðisstyrk sem aftur eflir færni hans til að veita skjólstæðingum sínum bestu mögulega þjónustu (Herbert o.fl., 2017). Um þetta er nánar fjallað í grein höfunda sem er væntanleg í Tímariti félagsráðgjafa (1. tbl. 16. árg. 2022). Fagfélag handleiðara, Handís Um síðustu aldamót stóð nýr útskriftarhópur handleiðara ásamt frumkvöðlum á sviðinu að stofnun Handleiðslufélags Íslands, Handís. Félagið hefur staðið fyrir námskeiðum, ráðstefnum og margvíslegri fræðslu um handleiðslu á vinnustöðum velferðarþjónustu. Tuttugu ára afmælinu hefur verið frestað ítrekað (vegna covid) en verður fagnað á þessu ári með ráðstefnu með erlendum fyrirlesurum þann 23. júní. Í tengslum við 20 ára afmælið og sem liður í því að styrkja fræðigrunn og sess handleiðslu í íslensku velferðarkerfi, á sviði félagsþjónustu, barnaverndar, menntamála og réttargæslu, kom út bók á íslensku um handleiðslumál, Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd - Fagvernd - Mannvernd (Sigrún Júlíusdóttir, 2020a). Hópur höfunda af breiðu sviði velferðarþjónustu rita sautján kafla í bókina sem Sigrún Júlíusdóttir ritstýrir. Þetta er fyrsta bók sinnar tegundar á íslensku og hefur hún reynst kærkomin kennslubók fyrir háskólanemendur í hjálpargreinum og handbók fyrir fagfólk á vettvangi. Blómaskeið fagmennsku- innreið markaðshyggju Um miðja síðustu öld þróaðist gróskuskeið handleiðslu sem órofa hluti af klínísku starfi, ekki síst á sviði fjölskyldufræða og félagsráðgjafar í vandasömu hjálparstarfi. Ritaðar voru bækur og greinar um gildi handleiðslu fyrir persónulega og faglega velferð fagmannsins, sem liðar í fagþroska hans og tryggingu fyrir gæði þjónustu til skjólstæðinga (Sigrún Júlíusdóttir, 2020b). Á seinni hluta aldarinnar varð hnignun frá þessu „blómaskeiði“ og áherslur viku fyrir harðri innrás markaðshyggju (e. new public management). Henni fylgdi rekstrar-, afkasta- og niðurskurðaráhersla með auknum málaþunga í velferðarþjónustu, stærri og flóknari bekkjarheildum í skólum, sérfræðingaskorti og fráflæðisvanda í heilbrigðisþjónustu. Við tók aðþrengingarskeið þar sem heill og heilsa fagfólks vék fyrir áhrifum vélræns fyrirtækjareksturs, eins konar iðnvæðingar velferðar-og mannverndarþjónustu (e. human service organizations). Þetta á ekki aðeins við um fagfólk í hjálpargeiranum heldur má sjá þess merki víðar, ma. í háskólasamfélaginu eins og fjallað er um í grein Bjarna H. Kristinssonar og Skúla Skúlasonar (2020) í tímaritinu Skírni um iðnvæðingu háskóla. Samhliða örri framþróun markaðshyggju hefur vaxið fram ný bylgja. Í henni komu fram menntaðir þjónar stjórnunarvalds og regluveldis, eins konar „varðliðar“ sem bæði standa vörð um skilvirkni rekstrarins, tryggja aðlögun að þröngum fjárhagsáætlunum og gæðaval á fagfólki. Eins og fjallað er um í áðurnefndri væntanlegri grein höfunda í Tímarit félagsráðgjafa þá fylgir þetta millistjórnendalag eftir niðurnjörfuðum starfslýsingum ásamt frammistöðusamtölum, hagræðingu og útskiptingum starfsmanna. Þessi stjórnskipan þrengir ekki aðeins að athafnarými fagmannsins, og skerðir öryggi og faglegt frelsi, heldur getur beinlínis ógnað líðan hans og farsæld. Lokaorð Einn hvati þess að velja sér hjálparstarf er samkennd og næmi sem (verðandi) fagmaður hefur þroskað með sér gagnvart sársauka og erfiðum aðstæðum annarra. Það er innbyggt í faghlutverk hjálpara að láta sig varða vellíðan annarra, jafnvel umfram eigin hag og heilsu (Figley, 1995). Þegar vilji og þörf hjálparans til að hjálpa er hneppt í skorður niðurskurðar og úrræðaskorts verður hætta á að persónulegt framlag hans, innlifunarhæfni og samkennd geti orðið á kostnað hans sjálfs, einkalífs hans og fjölskyldu. Með því að byggja á handleiðslukerfi sem föstum lið í innviðum velferðarstofnana með það að markmiði að vernda, næra og styrkja þá sem hjálpa öðrum, má koma í veg fyrir heilsutjón og uppgjöf í starfi (Sigrún Harðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir, 2019). Þetta snýr að öllum þeim sem hjálpa öðrum á breiðu sviði heilbrigðisþjónustu, þeim sem bera hag annarra fyrir brjósti í barnavernd og félagsþjónustu, þeim sem gæta réttar þeirra sem eru í samfélagslegri jaðarstöðu eða þarfnast aðstoðar á réttargæslusviði, og þeim sem koma börnum og ungmennum til þroska í skólum, uppeldis- og menntastofnunum landsins. Sigrún Harðardóttir er félagsráðgjafi MSW, Ph.D. og dósent við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.Sigrún Júlíusdóttir er félagsráðgjafi MSW, Ph.D. og prófessor emeritus við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, handleiðari og þerapisti, Tengsl/Samskiptastöðin. Heimildir Bjarni K. Kristinsson og Skúli Skúlason. (2020). Iðnvæðing háskóla – Hvernig markaðs- og nýfrjálshyggja mótar starfsemi háskóla á 21. öld. Skírnir, 194, 177-196. Ellis, M. V., Taylor, E. J., Corp, D. A., Hutman H. og Kangos, K. A. (2017). Narratives of harmful clinical supervision: Introduction to the Special Issue. The Clinical Supervisor, 36 (1), 4–19. https://doi.org/10.1080/07325223.2017.1297753 Figley, C. R. (1995). Compassion fatigue: Toward a new understanding of the costs of caring. Í B. H. Stamm (ritstjórar), Secondary traumatic stress: Self-care issues for clinicians, researchers, and educators (bls. 3–28). The Sidran Press. Herbert, J. T., Schultz, J. C., Lei, P. og Aydemir-Döke, D. (2017). Effectiveness of a training program to enhance clinical supervision of state vocational rehabilitation personnel. Rehabilitation Counseling Bulletin, 62 (1), 3–17. https://doi.org/10.1177/0034355217725721 Johns, C. (2017). Imagining reflective practice. Í J. Christopher (ritstjóri), Becoming a Reflective Practitioner (bls. 1–18) . (5. útgáfa). John Wiley & Sons. Sigrún Harðardóttir og Sigrún Júlíusdóttir. (2019). Opinber stefna, skólakerfið og hlutverk kennara: Viðbragðsbúnaður skólans. Stjórnmál & stjórnsýsla, 1 (15), 113–134. Sigrún Júlíusdóttir. (ritstjóri). (2020a). Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd - Fagvernd – Mannvernd. Háskólaútgáfan. Sigrún Júlíusdóttir. (2020b). Hugmyndagrunnur, upphaf, þróun og staða handleiðslufræða. Í Sigrún Júlíusdóttir (ritstjóri), Handleiðsla til eflingar í starfi. Vinnuvernd – Fagvernd - Mannvernd (bls. 17–61). Háskólaútgáfan. Þingskjal nr. 321/2021-2022. Tillaga til þingsályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum. https://www.althingi.is/altext/152/s/0341.html

Fræðslufundur í Nóvember
Nóvember fræðslufundur Handís verður haldinn 29. nóvember kl.17:00 til 19:00 í húsnæði Hjúkrunarfélag Íslands að Suðurlandabraut 22 3. hæð. Á árinu kom út á vegum Háskólaútgáfunnar og Rannsóknarseturs í barna og fjölskylduvernd bókin Handleiðsla til eflingar í starfi- Vinnuvernd, fagvernd, mannvernd í ritstjórn Sigrúnar Júlíusdóttur. Í bókinni fjalla sautján sérfræðingar úr ólíkum faghópum um handleiðslu. Á fræðslufundinum koma nokkrir höfundar bókarinnar til okkar og verða með upplestur úr bókinni að því loknu verður boðið upp á umræður.