Handleiðslufélag Íslands 25 ára
Handleiðslufélag Íslands – Handís fagnar nú 25 ára afmæli en félagið var stofnað 23. júní árið 2000. Stofnfélagar voru fyrstu nemendur sem útskrifuðust úr diplómanámi í handleiðslufræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands ásamt kennurum. Mikill metnaður og framsýni einkenndi félagið frá upphafi. Haldnir voru fræðslufundir í hverjum mánuði þar sem félagar skiptust á að vera með erindi og í kjölfarið voru fyrirspurnir og umræður. Fréttabréf voru gefin út og þar voru kynntar áhugaverðar bækur og ýmis fróðleikur. Hugað var að gæðamálum og útbúið staðfestingarblað fyrir félaga til að staðfesta handleiðlsu. Segja má því að gæðaviðmið fyrir handleiðslu hafi frá upphafi verið að handleiðari væri félagi í Handleiðslufélagi Íslands. Mikil gróska var í félagingu og stax var farið að huga að norrænu samstarfi og kom meðal annars Benedicte Schilling frá Danmörku til Íslands og var með námskeið/fræðslu fyrir félagsmenn. Hún skrifaði eftir dvöl sína á Íslandi í tímaritið Systemisk Forum sem er danskt fagtímarit um að felst norðurlöndin væru komin með þverfagleg fagfélög á sviði handleiðslu og hvatti til þess að slíkt félag yrði einnig stofnað í Danmörku líkt og búið væri að gera á Íslandi. Evrópusamtök handleiðara (e. Association of National Organisations for Supervision in Europe – ANSE) voru stofnuð árið 1997. Handleiðslufélag Íslands gerðist samstarfsaðili ANSE árið 2010 og fékk síðan fulla aðild árið 2024. Noregur og Svíþjóð eru einnig með fulla aðild að ANSE en Finland með samstarfsaðild. Danmörk og Færeyjar eru einu norðurlöndin sem ekki eru með aðild að ANSE enda hefur ekki enn verið stofnað þverfaglegt handleiðlsufélag þar sem landssamtök. Nám í handleiðslufræðum á Íslandi má rekja til ársins 1978 en þá efndi hópur metnaðarfullra sérfræðinga innan geðsviðs Landspítalans til skipulegs samstarfs um sjálfsnám og þjálfun í handleiðslufræðum. Hópurinn fékk til sín sérfræðinga frá Svíþjóð og Bretlandi sem höfðu þekkingu og reynslu af því að skipuleggja þjálfun í handleiðslu. Kristín Gústavsdóttir, félagsráðgjafi sem starfaði við Familjeinstitutet í Gautaborg í Svíþjóð, sá um faglega leiðsögn fyrir hópinn í þrjú ár. Í framhaldinu var síðan efnt til skipulegs tveggja ára náms í handleiðslufræðum fyrir þverfaglegan hóp innan geðdeildar Landspítalans. Þverfaglegur hópur (geðlæknir, félagsráðgjafi og sálfræðingur) myndaði námsnefnd og dr. Sigrún Júlíusdóttir stýrði náminu með ráðgjöf Kristínar Gústavsdóttur. Þær skrifuðu síðan saman grein árið 1990 um líkan námsins, framkvæmd þess og gagnsemi. Næsta áratuginn voru nokkur námskeið haldin á vegum Tengsla sf. og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og sáu Nanna K. Sigurðardóttir og dr. Sigrún Júlíusdóttir um þau námskeið ásamt styttri kynningar- og framhaldsnámskeiðum. Árið 1999 hófst síðan þriggja missera diplómanámsleið við Endurmenntun Háskóla Íslands og henni lauk árið 2000 með þeim öfluga hópi sem stofnaði Handleiðslufélag Íslands eins og áður sagði. Frá árinu 2017 hefur þverfaglegt nám verið kennt við Háskóla Ísland innan Félagsráðgjafardeildar og hafa um 100 manns lokið náminu. Handleiðslunámið er þverfræðilegt nám að loknu háskólanámi til starfsréttinda á sviði félags-, heilbrigðis- eða menntavísinda. Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á handleiðslufræðum og færni til að veita handleiðslu í faglegu starfi og skipuleggja handleiðslukerfi á vinnustað. Nemendur læra að beita kerfisnálgun og dýnamískri sýn til að skilja samskipti milli einstaklinga, faghópa og í stofnanasamstarfi. Námsleiðin er ekki kennd skólaárið 2025-2026 en voandi mun verða tekið inn í námið fyrir skólaárið 2026-2027. Í dag eru alls 70 manns með fulla aðild að Handleiðslufélagi Íslands en einnig geta nemar í handleiðslufræðum fengið nemaaðild og eru um 10 manns með slíka aðild. Óhætt er að segja að það er fjölbreyttur hópur fagaðila innan félagsins og allir ættu að geta fundið sér handleiðara. Margir hverjir veita einnig handleiðslu í gegnum fjarþjónustu sem er mikilvægt fyrir fagfólk á landsbyggðinni sem og þá sem starfa erlendis en vilja fá handleiðlsu frá íslenskum handleiðara. Fyrir rúmu ári síðan lauk dr. Díana Ósk Óskarsdóttir doktorsnámi í félagsráðgjöf með áherslu á handleiðslufræði. Heiti doktorsritgerðar hennar er Þekktu sjálfa/n þig. Eigindleg rannsókn á upplifun presta innan þjóðkirkju Íslands á handleiðslu (e. Know Thyself. A qualitative study of the experience of supervision among pastors in the National Church of Iceland). Díana er prestur, faglegur handleiðari og er sérhæfð í vinnuvernd á sálfélagslegu sviði. Hún starfar sem teymisstjóri Stuðningsteymis starfsfólks Landspítala ásamt því að sitja í öryggisnefnd spítalans og er einnig í stjórn Handleiðslufélags Íslands. Díana kynnti doktorsrannsókn sína þann 13. júní sl. á alþjóðlegri þverfaglegri ráðstefnu um klíníska handleiðslu hjá IICCS (International Interdisciplinary Conference on Clinical supervision) sem haldin var í Bandaríkjunum. Hún mun vera með erindi á afmælisráðstefnu Handleiðslufélags Íslands og fjalla þar um ávinning faglegrar handleiðslu. Sveindís Anna Jóhannsdóttir, formaður Handleiðslufélags Íslands, mun stýra vinnustofu í sumarháskóla ANSE sem haldinn verður í Munchen dagana 18. – 22. ágúst n.k. Hún mun fjalla um notkun matslista í handleiðslu og hvernig þeir nýtast samhliða ígrundun og samtalinu sem er grunnur í allri handleiðlsu. Þema sumarháskóla ANSE er: An ocean of possibility og er heitið á vinnustofu Sveindísar The inner ocean: A path to deeper self-awareness and well-being . Árið 2020 kom út bókin Handleiðsla til eflingar í starfi og sat Sveindís sat í ritstjórn bókarinnar en hún er einnig fastur pistlahöfundur hjá Tímariti ANSE. Sveindís er sérfræðingur í félagsráðgjöf með heilbrigðisþjónustu og handleiðslu sem sérsvið. Hún starfar sem framkvæmdastjóri hjá Stendur starfsendurhæfingu. Þjóðfélagið þarf nú sem aldrei fyrr á góðu fagfólki að halda. Fagfólki sem hefur fagmennsku að leiðarljósi og getur á heiðarlegan hátt stutt við fólkið sem leitar til þeirra. Þannig stuðlum við að vellíðan og heilsu einstaklingsins, bættri þjónustu, sterkri vinnustaðamenningu og heilbrigðara samfélagi. Þetta gerir faglegur handleiðari eftir að hafa lokið námi í handleiðslufræðum og fengið viðeigndi þjálfun sem veitir þekkingu og færni til að styðja við sjálfsþekkingu, sjálfstraust og mörk hvers og eins einstaklings. Við á Íslandi höfum verið lengi að taka við okkur hvað varðar að nýta faglega handleiðslu fyrir allar fagstéttir en við í Handleiðslufélagi Íslands finnum að fagfólk og stofnanir eru í auknum mæli að nýta handleiðslu sem sjálfsagðan lið, hvort sem er í forvarnarkyni eða til að efla og styðja við faglegan þroska starfsmanna og líðan í starfi. Ég óska öllum félögum í Handleiðlsufélagi Íslands til hamingju með 25 ára afmæli félagsins og sérstakar þakkir fá stofnfélagar fyrir metnað og framsýni. Félagið fagnar með morgunverðarfundi mánudaginn 23. júní á Grand Hótel kl. 9:00 – 12:00. Húsið opnar kl. 8:00 og við byrjum með morgunverðarhlaðborði. Dagskrá hefst kl. 9:00 með ávarpi formanns. Síðan eru tvö fræðsluerindi á dagskrá. Díana Ósk Óskarsdóttir mun fjalla um ávinning faglegrar handleiðlsu og Óskar Dýrmundur Ólafsson mun fjalla um handleiðslu og stjórnun og af hverju það sé mikilvægt að sækja nám í handleiðslufræðum. Formlegri dagsrká lýkur með heiðrun og tónlistaratriði en ráðstefnugestir njóta áfram samveru og efla tengsl sín á milli fram til kl. 12:00 Fundarstjóri er Sigrún Margrétar Óskarsdóttir, prestur og faglegur handleiðari. Enn eru örfáir miðar lausir á afmælisráðstefnuna. Skráning fer fram á heimasíðu félagsins en ráðstefnan er öllum opin. https://www.handleidsla.is/radstefnur Sveindís Anna Jóhannsdóttir, formaður Handleiðslufélags Íslands
