top of page
Search
handleidsla

Matslistinn ProQOL er kominn út á íslensku

Matslisti fyrir starfstengd lífsgæði fagfólks (e. Professional Quality Of Life Scale – ProQOL) er kominn út á íslensku. Félagsráðgjafarnir Sveindís Anna Jóhannsdóttir, Steinunn Hrafnsdóttir og Nadía Borisdóttir þýddu listann með leyfi frá samtökunum The Center for Victims of Torture (CVT). Sveindís og Nadía eru einnig menntaðir handleiðarar og sitja í stjórn Handleiðslufélags Íslands en Steinunn er prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Í þýðingarferlinu var matslistinn bakþýddur og forprófaður ásamt því að íslenskusérfræðingur las yfir og kom með ábendingar. Dr. Beth Hudnall Stamm á heiðurinn af þróun ProQOL listans og hefur lagt áherslu á að listinn sé ókeypis og aðgengilegur. Hægt er að nálgast matlistann á slóðinni www.proqol.org Þegar komið er inn á heimasíðuna þarf að velja flipann PROQOL, velja þar undir ProQOL Measure og fara niður síðuna þar til komið er að öðrum tungumálum en þau birtast í stafrófsröð. Samtökin CVT hafa umsjón með matslistanum og er allur réttur þeim áskilinn.


Matslistinn ProQOL hefur verið notaður frá árinu 1995 til að mæla bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar þess að vinna náið á faglegan hátt með öðru fólki en listinn mælir bæði samkenndarsátt (e. compassion satisfaction) og samkenndarþreytu (e. compasion fatigue). Samkenndarsátt er þegar fagfólki líður vel í starfi, upplifir öryggi, traust og stuðning í starfi þannig að jafnvægi er á milli þess sem starfsmaðurinn gefur af sér og þess sem hann fær til baka í gegnum sína vinnu. Samkenndarþreyta myndast þegar starfsmenn gefa meira af sér í starfi en þeir fá til baka. Samkenndarþreytu er skipt í tvo undirþætti, annars stigs áföll og kulnun. Starfsmenn í velferðarþjónustu verða oft vitni að alvarlegum atburðum, angist og sorg skjólstæðinga sinna og annars stigs áfall er þegar stakur atburður eða uppsöfnun margra atburða veldur einkennum sem eru sambærileg við áfallastreituröskun og starfsfólk óttast um öryggi sitt í vinnu og jafnvel utan hennar. Kulnun er hugtak sem nær yfir tilfinningalega örmögnun í kjölfar langvarnandi streitu í starfi og margir hafa talað um að hafa „tæmt sig alveg, þannig að það er ekkert eftir“ eða hafa „lent á vegg“ og hrunið andlega, líkamlega og félagslega í kjölfarið.


Matslistann ProQOL er gott að nota í handleiðslu við grunnmat og endurmat eða árlegt stöðumat en listinn metur bæði samkenndarsátt og samkenndarþreytu. Niðurstöður matslistans geta verið gagnlegar við að móta áherslur í handleiðslunni og hversu oft er þörf á handleiðslu. Ef sem dæmi samkenndarsátt mælist mjög lág en samkenndarþreyta mjög há, þannig að um er að ræða annars stigs áföll og/eða kulnun, þá gæti verið mikilvægt að skipuleggja vikulega handleiðslu um tíma og þegar einkenni minnka og líðan batnar er hægt að hafa lengra á milli handleiðslutíma. Almennt er talið að gagnsemi handleiðslu minnki mjög sé handleiðsla sótt sjaldnar en á 4-6 vikna fresti.


Sveindís Anna Jóhannsdóttir verður með námskeið í notkun ProQOL þriðjudaginn 31. október kl. 16:00 til 18:00 og hægt er að skrá þátttöku á netfangið sveindis@felagsradgjafinn.is Lokadagur skráningar er föstudagurinn 27. október. Námskeiðið fer fram að Selhellu 13, 221 Hafnarfirði. Námskeiðið kostar 8.000 kr. fyrir félagsfólk Handleiðslufélags Íslands en almennt verð er 15.000 kr.




151 views0 comments

Comments


bottom of page