
Mette Pedersen
Ég hef starfað sem bráðahjúkrunarfræðingur í rúmlega 25 ár og brenn fyrir faglegri þróun og velferð starfsfólks í framlínustörfum. Bakgrunnur minn sameinar víðtæka reynslu úr bráðaþjónustu og kennslu þar sem notast er við nám mitt í jákvæðri sálfræði, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun.
Sem faghandleiðari styð ég starfsfólk við að takast á við krefjandi aðstæður og finna jafnvægi í óútreiknanlegu og oft álags miklu starfsumhverfi. Ég hef unnið með einstaklingum og teymum að því að efla seiglu, tengsl og faglega sjálfsmynd.
Ég hef haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða, bæði innan og utan Landspítalans, þar sem ég tengi fræði jákvæðrar sálfræði við raunveruleika starfsfólks í heilbrigðis- og bráðaþjónustu. Viðfangsefnin mín snúast meðal annars um hvernig við fetum okkur í gegnum breytingar, styrkjum okkur sem fagfólk og lærum að líða vel — jafnvel þegar álagið er mest.
Sem hluti af umbótastarfi stýri ég nú innleiðingu verkefnisins „Handleiðsla á heimavelli“ á Bráðamóttökunni í Fossvogi, sem miðar að því að gera handleiðslu að sjálfsögðum og samþættum hluta starfsumhverfisins. Ég hef reynslu sem bæði millistjórnandi og stjórnandi, sem gefur mér breiða sýn á áskoranir starfsfólks og leiðtogahlutverkið.
Markmið mitt sem faghandleiðari er að aðstoða þig að finna þín eigin verkfæri til að skapa rými fyrir faglega ígrundun og sjálfbæra starfsánægju — þína lausn.