vnvnvbnvn
Fagmenska - gæði - öryggi
Greinar í tilefni 20 ára afmælis Handís
Grein 1 Handleiðslufélag Íslands fagnar 20 ára afmæli í ár. Vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem heimurinn hefur glímt við síðustu mánuði er afmælisráðstefna Handleiðlsufélag Íslands færð til ársins 2021. Þessir tímar kalla enn frekar á að vekja athygli á mikilvægi handleiðslu í starfi. Nú stendur yfir Vika handleiðslunnar 22.-26. júní á Íslandi og er það hluti af samvinnuverkefni Evrópusamtaka handleiðara. Faghandleiðsla er nýtt um allan heim fyrir fólk í hinum ýmsu störfum. Stór hluti heilbrigðisþjónustu erlendis hefur haft handleiðslu í tugi ára sem hluta af ráðingu í ný störf þar sem skilningur er á mikilvægi handleiðslu til að efla starfsgetu sína. Einnig er handleiðsla tækifæri til að skoða áhrif þungra og krefjandi viðfangsefna á starfsmanninn og hvernig bregðast megi við því. Handleiðsla stuðlar þannig að faglegum vexti einstaklingsins og styrkir fagsjálfið. Að auki er handleiðsla til að viðhalda starfsánægju og starfsþreki og þá einnig sem fyrirbyggjandi fyrir kulnun í starfi. Hér á landi er handleiðsla meðal fagfólks að aukast og ber því að fagna. Enn er þó langt í land með að fag- handleiðsla sé hluti af t.d ráðningarsamningum eins og þekkist erlendis. Ekki er annað hægt en að skora á fagfélög innan heilbrigðisþjónustu til að hvetja til að félagsmenn fái handleiðlsu og er tækifæri nú á afmælisári Handleiðslufélags Íslands. Í lokin við ég minna á vitunarvakningu á handleiðlsu í Evrópuviku handleiðlsu og fylgjast með fróðleiksmolum og kveðjum á heimasíðu og facebook síðu Handleiðslufélags Íslandsa og hvetja alla til að sækja ráðstefnu á vegum félagsins þann 28. maí 2021 þar sem erlendir fyrirlesarar verða bæði með fyrirlestra og vinnustofu. Góðar stundir Elísabet Sigfúsdóttir,félgasráðgjafi, fjölskylufræðingur, og handleiðari Grein 2 Áhrif handleiðslu á starfskilyrði fagfólks. Höf: Kristín Lilliendahl Höfundur er aðjunkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi handleiðari. Handleiðslufélag Íslands fagnar nú 20 ára starfsafmæli. Félagið var stofnað 23. júní árið 2000 og samanstendur af fagfólki sem hefur aflað sér tilskilinnar reynslu og réttinda til að handleiða einstaklinga og hópa við þróun faglegra starfa. Á vefsíðu félagsins má finna lista yfir þá aðila sem veita handleiðslu á ólíkum fagsviðum, svo sem heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Handleiðsla er þýðingarmikill þáttur í því að skapa fagfólki heilbrigð starfsskilyrði. Í handleiðslu er veitt endurgjöf á hugmyndir og íhlutanir fagmannsins og veittur stuðningur við að takast á við þær áskoranir sem starfinu fylgja. Í hnotskurn er handleiðsla dýrmætt tækifæri til að ígrunda eigin starfshætti og líðan í öruggu og óháðu umhverfi undir handleiðslu sérhæfðs aðila á skyldu fagsviði. Þær fagstéttir sem hér eru hafðar í huga eiga það sameiginlegt að hafa valið sér störf þar sem stutt er við fólk með einum eða öðrum hætti. Þótt starfsumhverfi þeirra sé ólíkt er þeim sammerkt að hafa með störfum sínum fjölþætt áhrif á lífsgæði skjólstæðinga sinna. Því fylgir ábyrgð sem getur orðið íþyngjandi, sérstaklega ef starfsskilyrði eru erfið, eftirfylgd og samráð lítið og úrræði eru takmörkuð. Starfsþreyta í slíkum aðstæðum er óhjákvæmileg og getur leitt til starfsþrots ef ekki er brugðist við. Starfstengd streita er ekki einkamál þeirra sem við hana glíma. Hún varðar almannaheill þegar grant er skoðað og er fyrst og fremst stofnana- og stjórnunarvandi sem bregðast þarf við með öflugum hætti. Hér er því haldið fram að faghandleiðsla geti gert gæfumuninn þegar fagfólk verður vart við þverrandi starfsgleði og vinnuþrek. Handleiðslu skyldi þó ekki síður að sækja í verndandi skyni þegar allt gengur að óskum og ætti að vera viðvarandi þáttur í viðhaldi og þróun á eigin starfshæfni. Handleiðsla við fagfólk er ekki munaður heldur ávinningur viðkomandi stofnana og í raun lykilþáttur í gæðaþróun þeirra. Samráð við kollega, teymisvinna og starfstengd leiðsögn getur aldrei orðið ígildi faghandleiðslu þrátt fyrir að vera á sinn hátt styðjandi, en hætt er við að litið sé þannig á ef handleiðsla er stjórnendum framandi eða að stofnunum sé fjárhagslega búinn þröngur kostur. Í hnotskurn eru störf fagstétta á fyrrnefndum sviðum þess eðlis að það hlýtur að varða öryggi almennings að fagfólk njóti faglegs stuðnings sjálft við störf sín. Það má segja að það sé kaldhæðnislegt að á tímum aukinnar áherslu á fagmennsku og gæði skuli handleiðsla vera jafn vanræktur þáttur og raun ber vitni. Á undanförnum mánuðum höfum við orðið vitni að því hvað við eigum öflugt fagfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Þar hefur viðbragðshæfni, umhyggja og þrautseigja einkennt öll inngrip og hvergi virst slakað á gæðum. Þessi framganga er þó ekki einungis viðbragð við þeim aðstæðum sem sköpuðust vegna Covid-19. Hún endurspeglar jafnframt það hugarfar og siðferði sem einkennir almennt álagsmikil störf þeirra fagstétta sem starfa við að bæta lífskjör annara. Hætt er þó við að viðbragðshæfni, umhyggja og aðrir góðir eiginleikar gangi fljótt til þurrðar þegar álag verður meira en getan til að mæta því. Vitundarvakning hefur orðið meðal fagfólks varðandi nauðsyn þess að standa vörð um starfsheilbrigði sitt. Handleiðsla er meðal þeirra þátta sem geta komið þar að góðu gagni. Reglubundin faghandleiðsla án íþyngjandi kostnaðar ætti í þessu ljósi að vera innbyggð og tryggð með lögbundnum hætti í starfskjörum umræddra fagstétta. Ástæða er til að hvetja viðkomandi fagfélög, stéttafélög og sveitafélög landsins til að beita sér sameiginlega fyrir því að svo geti orðið. Grein 3 Á þessu ári á Handís, Handleiðslufélag Íslands, 20 ára afmæli. Félagið var stofnað árið 2000 en að því standa einstaklingar sem veita faghandleiðslu. Félagsmenn Handís hafa lokið námi í faghandleiðslu og handleiðslutækni og koma þeir úr ýmsum starfsstéttum meðal annars mennta, heilbrigðis-og félagsmálaþjónustu. Handís er ætlað háskólamenntuðu fólki sem hafa menntun, reynslu og þjálfun í að veita öðrum handleiðslu. Heimasíða Handís er www.handleidsla.is
Handleiðslufræði á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Fyrsta bókin um handleiðslu, bók Mary Ricmond, Social Diagnosis kom út árið 1917, en þá voru önnur hugtök notuð yfir handleiðslu. Á Norðurlöndum var þróunin ör í handleiðslufræðum og þar er í dag víða skipulegt handleiðslukerfi innbyggt í stjórnun viðurkenndra meðferðastofnana.
Handleiðslu hefur verið skilgreind sem aðferð til að þess að efla fagmennsku, vernda fagmanninn og tryggja gæði þjónustunnar. Handleiðsla nýtist því vel í tengslum við dagleg störf fagfólks þar sem miklar kröfur eru gerðar til sérfræðiþekkingar og starfsleikni, þar sem viðfangsefni og skjólstæðingar eru krefjandi og úrræði takmörkuð.
Handleiðsla er yfir 100 ára gamalt fyrirbæri en hvaða erindi á hún til okkar í dag? Hvers vegna sækir fólk handleiðslu? Í nútímasamfélagi er mikið rætt um streitu og kulnun í starfi og lífi. Hægt er að skilgreina vinnustreitu sem skaðleg líkamleg og tilfinningaleg viðbrögð starfsmanns við miklu vinnuálagi, sem getur leitt til andlegs og líkamlegs heilsubrests ef hún er langvarandi. Kulnun er afleiðing langvarandi vinnustreitu og einkennist af m.a. algerri örmögnun, áhugaleysi, og minnkaðri starfgetu. Handleiðsla er leið til að sporna við streitu og kulnun en í leiðinni tækifæri til að efla fagvitund fagmannsins og eigin áhrifamátt. Handleiðslu er hægt að nota til að byggja upp góð starfsskilyrði og jákvæða vinnustaðamenningu og í því samhengi er handleiðsla forvörn gegn kulnun í stað þess að vera viðbragð við starfsþreytu og leiða. Oft er rætt um að starfsfólk í umönnunarstörfum sé útsett fyrir vinnustreitu og geta þá ástæður verið tengslin við skjólstæðingana, miklar kröfur til starfsfólks, fáliðaður starfshópur, óljósar væntingar um starfshlutverk og takmarkað fjármagn til þjónustu. Fundist hafa tengsl á milli stuðnings á vinnustað og starfsánægju ásamt því að stuðningur á vinnustað dregur úr líkum á streitu. Handleiðsla byggir á ákveðnum samningi milli tveggja aðila um að samþætta fræðilega þekkingu, faglegt vinnulag og persónulega eiginleika. Áherslan er á lærdóms og þroskaferli fagmannsins og að aðgreina fagsjálf og einkasjálf. Kostir við að veita handleiðslu er að hún getur verið stjórntæki til þróunar í starfi, aukið upplýsingaflæði og dregið úr streitu í starfi. Markmið handleiðslunnar er að hæfileikar hins handleidda njóti sín til fulls í starfi. Fagímynd allra hjálparstétta byggist m.a. á hæfni til að ná sambandi við skjólstæðinginn og gerir kröfur til persónulegs hugrekkis auk faglegrar færni. Handleiðsla er aðferð til þess að efla fagmennsku, vernda fagmanninn og tryggja gæði þjónustunnar. Því er óhætt að segja að vel skipulögð handleiðsla sem bæði er fagstuðningur og tilfinningalegur stuðningur tengdur starfinu stuðli að betri líðan starfsfólks, betri þjónustu og hagstæðari útkomu fyrir bæði starfsfólk og þjónustuþega. Sigurlaug Eyjólfsdóttir, félagsráðgjafi/handleiðari, fulltrúi í stjórn Handís Grein 4 Handleiðsla er sjálfsagður hlutur í nútíma starfsumhverfi Handleiðsla er gagnreynd forvörn gegn streitu og kulnun í starfi en einnig brýningartæki fagmannsins til að þróa nýjar hugmyndir eða skrepa á vinnubrögðum. Til að koma í veg fyrir að vinnutengd streita valdi heilsutjóni hjá einstaklingum og kosti fyrirtæki, stofnanir og almannatryggingakerfið háar fjárhæðir bæði beint og óbeint er nauðsynlegt að huga enn betur að forvörnum en hingað til hefur verið gert. Hugað er að vinnuumhverfi starfsmanna á margvislegan hátt. Stillanlegir skrifborðsstólar og stillanleg borð eru hlutir sem margir þekkja og eru til þess hannaðir til að létta álag við vinnu. Að skiptast á að koma með góðgæti með kaffinu eða fara af og til í hópefli eru einnig vel þekktar leiðir til að skapa jákvæða vinnustaðarmenningu. Sveigjanlegur vinnutími og fjölskyldustefna eru einnig liðir í að bæta vinnuumhverfi og gera starfsmönnum auðveldara að samræma vinnu og einkalíf. Þrátt fyrir ýmis konar stuðning, bæði tæknilegan og sálfélagslegan þá er það staðreynd að á hverju ári hverfur fólk af vinnumarkaði vegna streitu og kulnunar. Langvarndi streita hefur ekki bara starfstengd áhrif heldur einnig á einkalíf starfsmanna og almenna getu til að fást við lífið og tilveruna. Ingibjörg H. Jónsdóttir hjá Streiturannsóknarstofnun Svíþjóðar hefur bent á að kynjamunur er ekki á hvort konur eða karlar upplifi streitu. Ef aðstæður á vinnustað eru ófullnægjandi þá breytir engu hvort það er karl eða kona í starfinu en svo virðist sem vinnuaðstæður kvennastétta (t.d. kennara, hjúkrunarfræðiga og félagsráðgjafa) séu með þeim hætti að heilsu þeirra stafi ógn af og sjúkrasjóðir óðum að tæmast. Nýlega fékk ég sjálfvirkan tölvupóst frá póstkerfinu sem ég nota þar sem mér var bent á nýjan valmöguleika til að skipuleggja vinnudaginn minn betur með því að taka frá allt að tveimur tímum á dag í ,,focus time“, þ.e. að taka frá tíma daglega til að einbeita mér að þeim málum sem eru mikilvægust hverju sinni. Í handleiðslu gerum við það sama, tökum frá tíma (allt frá vikulega upp í mánaðarlega) þar sem við ígrundum og ræðum á faglegan hátt með sérfræðingi (sérmenntuðum handleiðara) um vinnuna, málin sem við erum að fást við, samskipti og hvernig okkur líður í vinnunni. Rannsóknir á handleiðslu sýna að hún eykur starfsánægju, stöðuleika í starfsmannahaldi, skipulögð vinnubrögð, ábyrgðarkennd, árang í starfi og tryggð við vinnustað, að unnið sé eftir gildum og markmiðum. Rannsóknir sýna einnig að ígrundunarþátturinn ásamt sjálfu handleiðslusambandinu eru verndandi þættir en handleiðsla leiðir einnig til betri árangursmælinga og hæfini starfsmanna, aukinnar ánægju í þjónustukönnunum, færri kvartana og valdeflingar bæði til handleiðsluþega og þeirra sem hann þjónustar. Nokkrar tegundir eru til af handleiðslu (s.s. einstaklings handleiðsla, hóphandleiðsla, teymishandleiðsla, stjórnunarhandleiðsla, fjarhandleiðsla o.fl.) og þarf að meta hverju sinni hvaða tengund hentar best. Matið þarf að byggja á faglegum forsendum en ekki efnahagslegum eða skorti á tíma. Handleiðsla ætti að vera jafn sjálfsögð sem verndandi þáttur á sviði félagslegrar vinnuverndar og til að tryggja gæði þjónustu og góður skrifboðsstóll eða stillanleg skrifborð eru til að tryggja rétta líkamsbeitingu í vinnunni. Vika handleiðslunnar er haldin hátíðleg hér á Íslandi 22.-26. júní og áherlsan í ár er á skilaboð til almennings og að nýta rafræna miðlun vegna takmarkana á samkomum. Nýtt efni verður birt daglega á heimasíðu félagsins (handleidsla.is) sem og á Facebook síðunni Handís. Að lokum óska ég Handleiðslufélagi Íslands til hamingju með 20 ára afmælið nú 23. júní og vonast til að sjá sem flesta sem láta félagslega vinnuvernd sig varða á ráðstefnu félagsins sem frestað hefur verið fram í maí árið 2021 sökum alheimsfaraldar.
Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félagsráðgjafi/handleiðari
Grein 5 ,,Og hvað svo?“ Handleiðsla á tímum Covid-19 Höfundur: Valgerður Hjartardóttir Hjúkrunar- og fjölskyldufræðingur, djákni og meðlimur í Handís.
Þann 23. júní n.k. á Handís, félag handleiðara, 20. ára afmæli. Líklega hefur þörfin fyrir handleiðslu aldrei verið eins brýn og gildi hennar eins mikið. Á síðustu mánuðum hafa orðið miklar breytingar víða á vinnustöðum, vinnumarkaðnum og í samfélaginu öllu. Í einni svipan lögðust niður heilar atvinnugreinar, sumar tímabundið og aðrar varanlega. Stofnanir og fyrirtæki endurskipulögðu alla þjónustu og framleiðslu. Samskipti breyttust og rafræn þjónusta var efld til muna. Heimilin voru gerð að vinnustöð. Foreldrar komust ekki til vinnu sinnar vegna skertrar viðveru barna í leikskólum og skólum. Foreldrar langveikra barna völdu að fara í varnareinangrun til að koma í veg fyrir smit hjá viðkvæmum börnum sínum. Heimilin urðu fyrir verulegu tekjutapi. Aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma voru einangraðir frá umheiminum og ástvinum vikum saman. Frí voru afturkölluð. Verkefnin hlóðust upp, álagið jókst og varð gríðarlegt hjá mörgum. Heilbrigðisstarfsfólk í framlínu lagði sig í hættu fyrir aðra. Á meðan misstu aðrir lífsviðurværi sitt. Í dag er margt komið í sama horf og fyrir Covid-19 en krefjandi aðstæður eru áfram til staðar og margt er breytt. Margir upplifa frelsissviptingu að geta ekki farið ferða sinna eins og áður. Sakleysið að við séum örugg var frá okkur tekið. Þegar slíkar breytingar verða á högum, lífsstíl og vinnuumhverfi er gott að staldra við og leita inn á við. Í breytingarferli vakna margar tilfinningar eins og missir á því sem áður var. Söknuður getur gert vart við sig. Áhyggjur, kvíði og óöryggi hvað verður. Í handleiðslu er breytingarferlið skoðað með áherslu á lærdóm. Hvað lærðum við á þessum tíma? Hvað viljum við taka með okkur inn í framtíðina? Hverju má sleppa? Hvað fengum við í staðinn? Hvað virkar? Hvað getum við gert betur? Hvað getum við lagt okkar að mörkum? Hvað langar okkur? Hver voru viðbrögð mín? Hvar liggja mörkin? Ótal margar spurningar vakna við slíkar breytingar sem dýrmætt er að fá speglun á og hlustun sem getur gefið aukna möguleika til að sjá og upplifa hlutina á annan hátt. Með samtalinu opnast ný tækifæri og innsýn í eigin þarfir. Þannig getur handleiðsla aukið faglega þekkingu og færni með endurgjöf og þróun sjálfsvitundar. Handleiðsla aðstoðar við að greina áskoranir og möguleika, getu til uppbyggingar, seiglu, aðlögunarhæfni og sjálfsöryggi og að finna jafnvægi milli fjölskyldulífs og vinnu. Handleiðsla hentar öllum þeim sem vilja auka starfsánægju, eflast í starfi og að hafa jákvæð áhrif á þróun menningar á vinnustað. Megi okkur ölllum farnast vel.