top of page

Greinar fyrir 20 ára afmælis Handís - Áhrif handleiðslu á starfskilyrði fagfólks

Handleiðslufélag Íslands fagnar nú 20 ára <b>starfsafmæli. </b>Félagið var stofnað 23. júní árið 2000 og samanstendur af fagfólki sem hefur aflað sér tilskilinnar reynslu og réttinda til að handleiða einstaklinga og hópa við þróun faglegra starfa. Á vefsíðu félagsins má finna lista yfir þá aðila sem veita handleiðslu á ólíkum fagsviðum, svo sem heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Handleiðsla er þýðingarmikill þáttur í því að skapa fagfólki heilbrigð starfsskilyrði. Í handleiðslu er veitt endurgjöf á hugmyndir og íhlutanir fagmannsins og veittur stuðningur við að takast á við þær áskoranir sem starfinu fylgja. Í hnotskurn er handleiðsla dýrmætt tækifæri til að ígrunda eigin starfshætti og líðan í öruggu og óháðu umhverfi undir handleiðslu sérhæfðs aðila á skyldu fagsviði.
Þær fagstéttir sem hér eru hafðar í huga eiga það sameiginlegt að hafa valið sér störf þar sem stutt er við fólk með einum eða öðrum hætti. Þótt starfsumhverfi þeirra sé ólíkt er þeim sammerkt að hafa með störfum sínum fjölþætt áhrif á lífsgæði skjólstæðinga sinna. Því fylgir ábyrgð sem getur orðið íþyngjandi, sérstaklega ef starfsskilyrði eru erfið, eftirfylgd og samráð lítið og úrræði eru takmörkuð. Starfsþreyta í slíkum aðstæðum er óhjákvæmileg og getur leitt til starfsþrots ef ekki er brugðist við. Starfstengd streita er ekki einkamál þeirra sem við hana glíma. Hún varðar almannaheill þegar grant er skoðað og er fyrst og fremst stofnana- og stjórnunarvandi sem bregðast þarf við með öflugum hætti. Hér er því haldið fram að faghandleiðsla geti gert gæfumuninn þegar fagfólk verður vart við þverrandi starfsgleði og vinnuþrek. Handleiðslu skyldi þó ekki síður að sækja í verndandi skyni þegar allt gengur að óskum og ætti að vera viðvarandi þáttur í viðhaldi og þróun á eigin starfshæfni.
Handleiðsla við fagfólk er ekki munaður heldur ávinningur viðkomandi stofnana og í raun lykilþáttur í gæðaþróun þeirra. Samráð við kollega, teymisvinna og starfstengd leiðsögn getur aldrei orðið ígildi faghandleiðslu þrátt fyrir að vera á sinn hátt styðjandi, en hætt er við að litið sé þannig á ef handleiðsla er stjórnendum framandi eða að stofnunum sé fjárhagslega búinn þröngur kostur. Í hnotskurn eru störf fagstétta á fyrrnefndum sviðum þess eðlis að það hlýtur að varða öryggi almennings að fagfólk njóti faglegs stuðnings sjálft við störf sín. Það má segja að það sé kaldhæðnislegt að á tímum aukinnar áherslu á fagmennsku og gæði skuli handleiðsla vera jafn vanræktur þáttur og raun ber vitni.
Á undanförnum mánuðum höfum við orðið vitni að því hvað við eigum öflugt fagfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Þar hefur viðbragðshæfni, umhyggja og þrautseigja einkennt öll inngrip og hvergi virst slakað á gæðum. Þessi framganga er þó ekki einungis viðbragð við þeim aðstæðum sem sköpuðust vegna Covid-19. Hún endurspeglar jafnframt það hugarfar og siðferði sem einkennir almennt álagsmikil störf þeirra fagstétta sem starfa við að bæta lífskjör annara. Hætt er þó við að viðbragðshæfni, umhyggja og aðrir góðir eiginleikar gangi fljótt til þurrðar þegar álag verður meira en getan til að mæta því. Vitundarvakning hefur orðið meðal fagfólks varðandi nauðsyn þess að standa vörð um starfsheilbrigði sitt. Handleiðsla er meðal þeirra þátta sem geta komið þar að góðu gagni. Reglubundin faghandleiðsla án íþyngjandi kostnaðar ætti í þessu ljósi að vera innbyggð og tryggð með lögbundnum hætti í starfskjörum umræddra fagstétta. Ástæða er til að hvetja viðkomandi fagfélög, stéttafélög og sveitafélög landsins til að beita sér sameiginlega fyrir því að svo geti orðið.

Greinar fyrir 20 ára afmælis Handís  - Áhrif handleiðslu á starfskilyrði fagfólks
bottom of page